Ernir Snorrason læknir
Dr. Ernir Snorrason heitinn var íslenskur læknir og vísindamaður sem rannsakaði ME sjúkdóminn. Rannsóknir hans vöktu athygli á alþjóðavettvangi og m.a. taldi hann að notkun tiltekins Alzheimerslyfs hjálpaði ME sjúklingum en sá sjúkdómur er talinn mögulega orsakast af bólguástandi í heila. Annars eiga þessir tveir sjúkdómar ekkert annað sameiginlegt.
Ernir var brautryðjandi í að útskýra ME sjúkdóminn og í viðtali Morgunblaðsins árið 1996 við hann, Júlíus Valsson, Sverri Bergmann, Helga Kristbjarnarson og Árna Geirsson mótmælir Ernir þunglyndisgreiningu á ME. Á þessum tíma voru þau viðhorf ráðandi að ME væri af geðrænum toga og kom sú kenning frá hópi breskra geðlækna eins og lesa má í inngangi að viðtalinu við íslensku læknana. Ernir mótmælir þessari skýringu á veikindum harðlega:
"Þessi viðhorf eru gjörsamlega úrelt," sagði dr. Ernir Snorrason, sérfræðingur í geðlækningum. "Þetta er líkamlegur sjúkdómur og á nákvæmlega ekkert skylt við þunglyndi. Geðlæknar halda því fram að þarna leiði andlegar truflanir af sér líkamleg einkenni. Þetta er þvæla og stenst engan veginn, sbr. Akureyrarveikina, þar sem rúmlega 400 manns sýktust. Engin dæmi eru í sögunni um að þunglyndi sé sjúkdómur sem breiðist út í faraldur. Gallinn við þá geðlæknisfræði sem stunduð er í dag er sá að menn nota mjög óljós hugtök. Þunglyndi er mjög óvísindalegt hugtak. Geðlæknisfræðin hefur ruglað fólk í ríminu og það tekur tíma að vinda ofan af því. Sagt er að birtar hafi verið niðurstöður þessara rannsókna en ég hef hvergi nokkurs staðar séð þær."
Galantamine
Ernir setti fram nýja tilgátu um orsakir og eðli ME sem hann kallaði síþreytufár og benti á hvernig hægt væri að búa til lyf í því skyni að meðhöndla sjúkdóminn. Þetta lyf kallast Galantamine og hér má sjá frétt í Morgunblaðinu frá árinu 1995 um þróun lyfsins og þátt Ernis í henni.
Ernir Snorrason
geðlæknir og taugasálfræðingur