Greiningar

Til að hægt sé að greina og staðfesta sjúkdóm er nauðsynlegt að einhvers konar samþykkt viðmið séu til staðar. Í leit að greiningu má oft leita svara með því að taka sýni frá sjúklingnum eða prófa hann en einnig með því að skoða einkenni og bera saman við viðurkennda lista (criteria).

 

Það hefur gengið alveg óvenju illa að ná sátt um hvernig greina skuli ME. Óeiningin sést kannski best á því að enn er deilt um hvað kalla skuli sjúkdóminn. ME nafnið hefur lengi verið til en ekki eru allir sammála um að um ME sé að ræða í öllum tilfellum. Þannig varð nafnið Chronic Fatigue Syndrome (CFS) til sem var svo þýtt sem síþreyta á íslensku. Þessi nafnadeila kemur ekki síst til vegna þeirrar óvissu sem ríkt hefur um orsakir og eðli sjúkdómsins. Þessi óeining um nafnið, greininguna og meðferð hefur einkennt alla umræðu um sjúkdóminn allt of lengi en það virðist eitthvað vera að rofa til. Eftir því sem fleiri rannsóknaniðurstöður birtast skýrist myndin og nú er til mjög góð greining fyrir ME, ICC greiningin frá 2011.

 

ME félag Íslands hefur látið þýða ICC greininguna og hægt er að nálgast hana hér. ICC stendur fyrir International Consensus Criteria og var þessi greining samin af 26 sérfræðingum frá 13 löndum.

Síðan hún kom út árið 2011 hefur tillaga að nýrri greiningu komið fram. Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum fengu Institute of Medicine (IOM) til að endurmeta CFS (eins og sjúkdómurinn hefur verið kallaður þarlendis). IOM skýrslan kom út í febrúar 2015 en af ýmsum ástæðum hefur hún ekki náð mikilli útbreiðslu. Enn sem komið er þykir ICC greiningin best enda komu allir helstu ME sérfræðingar heims að henni.

 

ICC greiningin er þó ekki hafin yfir alla gagnrýni. Mörgum þykir hún löng og telja að læknar eigi ekki eftir að sjá sér fært að kynna sér hana og tileinka. Það fyrirfinnast styttar útgáfur af henni en þær eru bundnar við ákveðna lækna eða meðferðarstöðvar og eru ekki í almennri dreifingu. Þrátt fyrir þennan annmarka er ICC greiningin mjög góð og sú greining sem nær best að greina ME og útiloka aðra sjúkdóma.

 

Hér að neðan er listi yfi helstu greiningar sem komið hafa fram fyrir CFS og ME, þær nýjustu efst. Eldri greiningar markast margar af því viðhorfi að sjúkdómurinn sé af andlegum eða geðrænum toga. Þótt enginn einn sjúkdómur útiloki annan er í nýrri greiningum ekki gengið út frá þeim forsendum og skýringanna leitað í ósjálfráða taugakerfinu og ónæmiskerfinu.

Nightingale greiningin 2007

Þetta er metnaðarfull tilraun til að skilgreina ME og reyna að koma fram með greiningarviðmið. Hún var sett fram af Nightingale Research Foundation sem er ME rannsóknarsetur í Kanada. Þessi greining er ekki notuð.

Kanadíska greiningin 2003

Heilbrigðisyfirvöld í Kanada átti frumkvæðið að því að þessi ME/CFS greining var gerð. Sérfræðingar frá ýmsum löndum komu að henni og var hún birt 2003. Þetta er sú greining sem flestir hafa verið ánægðir með og vilja sérfræðingar sem þekkja ME og sjúklingahópar að hún sé notuð. Þar ræður mestu að hún nær að skilja frá þá sem aðallega þjást af andlegum veikindum. Einnig nær hún að greina ME þótt sjúklingur mæti ekki viðmiðum um þreytumörk (uppfyllil þeir önnur skilyrði).

CDC greiningarviðmið endurskoðuð og prófuð

Hin opinberu greiningarviðmið CDC frá 1994 hafa nokkrum sinnum verið endurskoðuð. Árið 2003 komust sérfræðingar frá ýmsum löndum að þeirri niðurstöðu að þau væru ófullkomin og næðu til mun fleiri sjúkdóma en ME. Árið 2005 var gefin út endurbætt útgáfa af greiningarviðmiðunum. Þau voru prófuð árið 2009 af nokkrum sérfræðingum (DePaul University) og reyndust enn vera vankantar á þeim.

 

London greiningin 1994

Þessi ME greining var fyrst og fremst samin í rannsóknartilgangi af The Association for Financial Markets in Europe (AFME). Ókláruð útgáfa hennar var gefin út árið 1994. Ekki í notkun.

Oxford greiningin 1991

CFS greining (síþreytugreining) sem samin og notuð er af geðlæknum í Bretlandi. Þessi greining er ekki eins nákvæm og London greiningin og hún nær auðveldlega yfir þá sem þjást af þreytu án annara einkenna. Þannig geta margir aðrir en ME sjúklingar fallið inn í hana og því er hún ekki gagnleg til greiningar á ME.

Holmes greiningin 1988 (CDC, Bandaríkin)

Fyrsta tilraun til greiningar á CFS (síþreytu). Stundum kölluð Holmes greiningin eftir höfundi hennar. Sjúklingur skyldi sýna 8 af 11 tilteknum einkennum. Greiningin hafði þann galla að undir hana féllu sjúklingar með geðvanda. Það var þó ekki ætlunin. Þessi greining er ekki lengur notuð.

Ramsay 1986

Árið 1955 kom upp faraldur á Royal Free sjúkrahúsinu í London. Dr. Melvin Ramsay gerði honum skil í bókinni Myalgic Encephalomyelitis and Postviral Fatigue States: The saga of Royal Free disease árið 1986. Ramsay er sá sem gaf þessum sjúkdómi nafnið Benign Myalgic Encephalomyelitis en kaus síðar að sleppa orðinu benign. Ramsay greiningin er ekki notuð í dag.

Please reload