Greiningar
Til að hægt sé að greina og staðfesta sjúkdóm er nauðsynlegt að einhvers konar samþykkt viðmið séu til staðar. Í leit að greiningu má oft leita svara með því að taka sýni frá sjúklingnum eða prófa hann en einnig með því að skoða einkenni og bera saman við viðurkennda lista (criteria).
Það hefur gengið alveg óvenju illa að ná sátt um hvernig greina skuli ME. Óeiningin sést kannski best á því að enn er deilt um hvað kalla skuli sjúkdóminn. ME nafnið hefur lengi verið til en ekki eru allir sammála um að um ME sé að ræða í öllum tilfellum. Þannig varð nafnið Chronic Fatigue Syndrome (CFS) til sem var svo þýtt sem síþreyta á íslensku. Þessi nafnadeila kemur ekki síst til vegna þeirrar óvissu sem ríkt hefur um orsakir og eðli sjúkdómsins. Þessi óeining um nafnið, greininguna og meðferð hefur einkennt alla umræðu um sjúkdóminn allt of lengi en það virðist eitthvað vera að rofa til. Eftir því sem fleiri rannsóknaniðurstöður birtast skýrist myndin og nú er til mjög góð greining fyrir ME, ICC greiningin frá 2011.
ME félag Íslands hefur látið þýða ICC greininguna og hægt er að nálgast hana hér. ICC stendur fyrir International Consensus Criteria og var þessi greining samin af 26 sérfræðingum frá 13 löndum.
Síðan hún kom út árið 2011 hefur tillaga að nýrri greiningu komið fram. Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum fengu Institute of Medicine (IOM) til að endurmeta CFS (eins og sjúkdómurinn hefur verið kallaður þarlendis). IOM skýrslan kom út í febrúar 2015 en af ýmsum ástæðum hefur hún ekki náð mikilli útbreiðslu. Enn sem komið er þykir ICC greiningin best enda komu allir helstu ME sérfræðingar heims að henni.
ICC greiningin er þó ekki hafin yfir alla gagnrýni. Mörgum þykir hún löng og telja að læknar eigi ekki eftir að sjá sér fært að kynna sér hana og tileinka. Það fyrirfinnast styttar útgáfur af henni en þær eru bundnar við ákveðna lækna eða meðferðarstöðvar og eru ekki í almennri dreifingu. Þrátt fyrir þennan annmarka er ICC greiningin mjög góð og sú greining sem nær best að greina ME og útiloka aðra sjúkdóma.
Hér að neðan er listi yfi helstu greiningar sem komið hafa fram fyrir CFS og ME, þær nýjustu efst. Eldri greiningar markast margar af því viðhorfi að sjúkdómurinn sé af andlegum eða geðrænum toga. Þótt enginn einn sjúkdómur útiloki annan er í nýrri greiningum ekki gengið út frá þeim forsendum og skýringanna leitað í ósjálfráða taugakerfinu og ónæmiskerfinu.