top of page

Örverur í meltingarvegi

Sú rannsókn sem beðið er eftir með hvað mestri eftirvæntingu á meðal M.E. sjúklinga í Bandaríkjunum er væntanleg rannsókn Dr. Ian Lipkin á örverumengi í meltingarvegi (þarmaflóru) sjúklinga sem ber nafnið The Microbe Discovery Project.

Dr. Lipkin varð heimsþekktur í röðum M.E. sjúklinga þegar hann afsannaði að XMRV retróvírusinn væri orsakavaldur M.E. Það kom í ljós í dýrustu rannsókn sem fram hefur farið á sjúkdómnum og Lipkin stýrði fyrir bandarísk heilbrigðisyfirvöld á árunum 2011 til 2012. Lipkin, sem er einn af þekktustu örverufræðingum heims, missti ekki áhugann á M.E. og reyndi mikið að fá fjármagn í fleiri rannsóknir enda hafði hann séð merki þess sem hann taldi vera ónæmiskerfisviðbrögð vegna breyttrar örveruflóru meltingarvegs hjá sjúklingum. Þegar þetta fjármagn fékkst ekki fór hann þá leið að leita til sjúklinga og samtaka í Bandaríkjunum til að standa undir kostnaði á henni. Eftirfarandi pistill er af söfnunarsíðu þessa framtaks og lýsir markmiðum og tilgangi rannsóknarinnar.  

 

Rökstuðningur

 

Hingað til hefur Dr. Lipkin ekki fundið neina vírusa eða bakteríur sem koma sterklega til greina sem orsakavaldar ME/CFS í þeim sýnum sem hann tók í nýlegri samanburðarrannsókn. Hins vegar sýndi rannsóknin fram á sérstaka ónæmiskerfisvirkni í sjúklingum sem hugsanlega valda sjúkdómseinkennunum. Spurningin er; hvað veldur þessari ónæmiskerfisvirkni?

 

Einn möguleiki er að vandamál sé til staðar í örveruflórunni sem lifir á okkur, lífríki baktería, veira og sveppa sem býr í eða á líkama okkar. Þetta kerfi örvera hefur verið sífellt meira tengt alvarlegum sjúkdómum. Teymi Dr. Lipkins hefur nú þegar fundið afbrigðileika í örveruflóru sjúklinga með ristilkrabbamein, í andvana fæðingu og einhverfu og þetta er efnilegt  rannsóknarsvið fyrir ME / CFS.  Í ljósi þess að ónæmiskerfið er að mestu leyti í þörmunum og að margir sjúklingar hafa meltingarvandamál, gæti vel verið að orsök sjúkdóma okkar sé að finna innan þarmaflórunnar.

 

Rannsóknarviðmið

 

Rannsóknin fer fram í miðstöð Dr. Lipkin til sýkinga- og ónæmiskerfisrannsókna við Columbia háskóla í New York.  Hún er stærsta og fullkomnasta rannsóknarmiðstöð heimsins til greiningar örvera.  Teymi hans mun beita há-afkasta DNA raðgreiningu til að greina veirur, bakteríur og sveppi í hægðasýnum frá 100 M.E. sjúklingum og 100 samanburðareinstaklingum og mun einnig ákvarða magn hverrar örveru með mjög nákvæmum rauntíma PCR greiningum fyrir hverja örveru fyrir sig.

 

Styrkur frumuboða (cytokines/ónæmiskerfis-boðeinda) verður mældur í blóði til að leiða fram ónæmiskerfis-prófíl hvers sjúklings. Lífeðlistölfræði-sérfæðingar munu síðan greina frumuboða og örverumengisamsetningar til að greina hugsanleg tengsl við ME/CFS og að skilgreina tengslin á milli ónæmiskerfisvísbendinga og örverumengja. Einnig hyggst teymið þróa mótefnispróf fyrir allar örverur sem virðast vera tengdar ónæmiskerfinu.

 

Sýnin

 

Þeir sjúklingar og samanburðarhópurinn sem taka þátt í rannsókninni hafa nú þegar verið valdir en þeir voru þátttakendur í fyrri rannsókn Bandarísku lýðheilsustofnunarinnar (NIH). Þeir voru valdir af þekktustu M.E./CFS sérfræðinum bandaríkjanna, Dr. Klimas, Levine, Bateman, Peterson, Montoya og Komaroff – sem skilgreindu og völdu í rannsóknina sjúklinga sem uppfylltu bæði Fukuda og kanadísku M.E. greiningarviðmiðin  (Fukuda Criteria & Canadian Criteria).

 

 

 

Næstu skref

 

Þær örverur í þörmum sem eru hvað þekktastar fyrir að valda ónæmiskerfisvanvirkni (vegna cytokine-örvunar) verða skoðaðar sem líklegir orsakavaldar í ME/CFS. Næsta skref verður að finna út hvort þeir eru orsök sjúkdómsins eða einfaldlega afleiðing.

Einn möguleiki í stöðunni er að nota dýrarannsóknir – þ.e.a.s að koma þeim örverum sem grunaðar eru fyrir í meltingarvegi dýra til að sjá hvort þau þrói með sér sömu einkenni og mynstur ónæmisvirkni og sést hjá mönnum (sjúklingum með M.E. – innsk. þýð).

 

Annar möguleiki er að beita síðan fljótlega "sönnunar-miðuðum" klínískum samanburðarrannsóknum, með samanburðar-lyfleysuhóp,  með því að nota meðferðir sem líklegar eru til að hafa áhrif á þær örverur sem um ræðir. Ef sjúklingar sem fá þannig meðferðir gengur betur en sjúklingum sem fengu lyfleysu, og ef þarmaflóru-samsetningar þessara sjúklinga sýna einnig breytingar sem koma ekki fram í meltingarvegi sjúklinga sem fengu lyfleysu, myndi það renna sterkari stoðum undir þá kenningu að þarmaflóra leiki ákveðið hlutverk. Ákveðnar samsetningar þarmaflóru geta einnig þjónað sem lífgreinir (Biomarker – þýð.) eða vísbending um að sjúklingur mun bregðast jákvætt við ákveðinni tegund örverumeðferðar.

 

Mögulegar meðferðir

 

Ef örveruvandamál greinast, hefur Dr Lipkin áhuga á að koma upp tilraunameðferðum sem gætu falið í sér vinveitta gerlaflóru (probiotics þýð.), sýklalyfjagjöf sem yrði fylgt eftir með gerlaflóru, sérhæfðu mataræði og jafnvel hægðatilfluttningi  Slíkur flutningur á hægðum með nýrri örveruflóru (á milli sjúklinga – insk. þýð).  hefur nú þegar sýnt fram á mikil áhrif í meðhöndlun á lífshættulegum sýkingum vegna  bakteríunar C. difficile. Það er einnig óstaðfestar vísbendingar frá sjúklingum um góða virkni þeirra við meðhöndlun margs konar langvarandi sjúkdóma, eins og liðagigt, iðraóeirð, glútenóþol og efnaskiptavillu (metabolic syndrome – þýð.)

 

Dr. Lipkin telur ólíklegt að það finnist bara eitt örverumynstur sem veldur ME/CFS. Líklegra er að afleiðing af mismunandi samsetningum af örverukerfum komi í ljós - hugsanlega samsettt bakteríu-, sveppa- eða veirumynstur sem framkalli mismunandi tegundir af ónæmiskerfisvanvirkni.  Ef svo er þyrfti að aðlaga hverja meðferð fyrir sig að hverjum sjúklingi og fínstilla hana í samræmi við örveruvanda þeirra.

 

Að sjálfsögðu er ME/CFS talið hafa margar orsakir og örverumengið þarf ekki að vera lausnin fyrir alla sjúklinga. Hins vegar er það skref, að finna þá sjúklinga sem hafa ónæmisröskun tengda örveruflóru líkamans, mikilvægt fyrsta skref í átt að betri skilningi og áhrifaríkri meðferð sjúkdómsins.

 

Gísli Þráinsson, 11. júní 2014

 

Hér er Facebook síða rannsóknarinnar

 

 

Uppfært í apríl 2017:

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar Microbiome Journal þann 26. apríl 2017. Sjá hér.

Sjá hér umfjöllun Cort Johnson um niðurstöðurnar á vef Simmaron stofnunarinnar.

PubMed yfirlitsrannsóknir Ken Lassesen gagnavísindamanns. Hann er byrjaður, í framhaldi af þessum niðurstöðum, að fara yfir allt sem hefur birst í læknisfræðinni um hvernig hægt er að hafa áhrif á þær örverutegundir sem rannsóknin bendir á og mun birta það allt á næstunni. 

bottom of page