top of page

Tímamótaniðurstöður


Það bárust stórfréttir frá Open Medicine Foundation stofnuninni í vikunni. Loksins virðist vera hægt að sýna fram á mælanleg frávik hjá ME sjúklingum – eitthvað sem beðið hefur verið eftir árum og áratugum saman. Þetta er einmitt það sem allir hafa vonast til að sjá svo hægt sé að sýna fram á með óyggjandi hætti að þessi sjúkdómur sé ekki af andlegum toga heldur vegna líkmlegra þátta sem sjúklingurinn hefur ekki stjórn á. Vonir standa til að hægt verði að útbúa einfalt próf og koma því í almenna notkun.

Rannsóknin sem gaf þessar merku niðurstöður var gerð á 40 viðföngum; 20 sjúklingum og 20 heilbrigðum til samanburðar. Það tók langan tíma að finna sjúklingana því það þarf að tryggja svo óyggjandi sé að þeir séu raunverulega með ME en ekki einhvern annan sjúkdóm með svipuð einkenni.

Blóðsýni voru tekin úr viðföngunum og ýmsar rannsóknir gerðar. Sú sem um ræðir gekk út að á láta frumur takast á við álag. Það er einfalt mál að gera það; bara að setja svolítið salt í blóðsýnin því saltið fer inn í frumurnar sem þurfa þá að hreinsa það út aftur. Til þess nota frumurnar orku og markmiðið var að athuga hvort mælanlegur munur væri á viðbrögðum fruma úr sjúklinum annars vegar og heilbrigðra hins vegar. Munurinn var mjög greinilegur og hann er sýndur á meðfylgjandi skýringarmynd. Sjúklingar eru merktir með rauðu, samanburðarviðföng með bláu. Myndin er úr fyrirlestri Rod Davis um rannsóknina.

Rannsóknin var birt í Proceedings of the National Academy of Sciences þann 29. apríl 2019.

Hér er frétt frá Stanford háskóla um niðurstöðurnar og viðtal við Dr. Ron Davis.


Fréttir
bottom of page