top of page

Tímamót í sögu ME í Evrópu


Það bárust stórfréttir frá Evrópu nú í vikunni þegar Evrópuþingið samþykkti að fara fram á það við framkvæmdaráð Evrópusambandsins að veita auknu fjármagni til rannsókna á ME.

Í tillögunni sem samþykkt var með miklum meirihluta er meðal annars bent á að áætlað er að um tvær milljónir evrópubúa þjáist af ME og að fjárhagsleg byrði Evrópulandanna vegna sjúkdómsins sé um 40 billjónir evra.

Auk þess segir:

Myalgic encephalomyelitis er langvarandi tauga- og ónæmissjúkdómur sem hefur áhrif á mjög marga. Því miður er ekki mikið vitað um orsakir ME eða lækningu. Við viljum auka lífsgæði sjúklinga og fjölskyldna þeirra og draga úr þjáningum þessa fólks og félagslegri einangrun.

Bent er á að þessi fjárveiting kalli á aukið samstarf Evrópuþjóða um rannsóknir svo unnt sé að koma fram með greiningu og meðferð sem fyrst.

Í umræðunni var farið inn á stöðu sjúklinga við núverandi ástand; þekkingarleysi heilbrigðiskerfisins og almennings og nauðsyn þess að auka fræðslu um sjúkdóminn.

Hér má sjá tillöguna sem er mjög merkileg lesning.

Það eru ákveðin tímamót að sjá þetta erindi á efstu stigum stjórnsýslu Evrópu því þarna er útlistaður sá raunveruleiki sem ME sjúklingar, aðstandendur þeirra og margir úr lækna- og vísindasamfélaginu hafa lengi reynt að vekja athygli á með litlum árangri. Tillagan ein og sér og svo samþykkt hennar með meirihluta er sigur í sjálfu sér og rík ástæða til að gleðjast.

Hér má sjá frétt um málið sem unnin er upp úr tillögunni.


Fréttir
bottom of page