top of page

Greinar um ME í The Scientist


The Scientist, vefmiðill um vísindi og rannsóknir, birti nýlega tvær greinar um ME. Sjónir fólks beinast nú í auknum mæli að sjúkdómnum því óttast er að ME sjúklingum muni fjölga í kjölfar Covid-19 faraldursins.

Fyrri greinin sem kallast Could Covid-19 trigger chronic disease in some people? og birtist 17. júlí sl. tekur það einmitt sérstaklega fyrir. Í henni er sagt frá sjúklingum sem eiga í langvarandi veikindum eftir Covid-19 smit og minnir saga þeirra óneitanlega á sögur ME sjúklinga. Sjúklingarnir lýsa alls kyns sjúkdómseinkennum sem virðast illskýranleg og segjast rekast á ráðaleysi og hugsanlega vantrú lækna.

Vísað er til ummæla Anthony Fauci, forstjóra sóttvarnastofnunnar Bandaríkjanna, þar sem hann lýsir áhyggjum sínum af því að fjöldi ME sjúklinga muni aukast í kjölfar Covid-19. Það er líka vísað í fleiri sérfræðinga sem hafa viðrað svipaðar áhyggjur undanfarið. Sérfæðingar sem rætt er við vita að langvarandi veikindi fylgja gjarnan svona vírussýkingum og er SARS faraldurinn 2003 í Toronto nýlegt dæmi um það.

Nú er staðan reyndar sú að ekki er spurt hvort svona veikindi munu fylgja Covid-19 heldur hvers vegna það gerist hjá sumum í kjölfar vírussýkinga. Í greininni eru hugmyndir vísindafólks kynntar og það er mjög áhugavert að sjá raunverulegar tilgátur og umræður um orsakir ME.

Seinni greinin kallast einfaldlega What is ME/CFS? og þar eru fjallað um helstu einkenni og þekktar orsakir fyrir sjúkdómnum á mjög aðgengilegan hátt með myndskreytingum.


Fréttir
bottom of page