top of page

Fyrirlestur Dr. Jonas Bergquist á Hótel Hilton, 19. janúar
Dr. Jonas Bergquist prófessor í efnafræðideild háskólans í Uppsölum, Svíþjóð heimsótti íslendinga nýlega í tengslum við læknadaga í Hörpu. Hann flutti einnig fyrirlestur sem gestur ME félagsins á Hilton hótelinu Suðurlandsbraut 19. janúar. Fyrirlesturinn var ákaflega fróðlegur og skemmtilegur og þýddi Kristín Sigurðardóttir læknir fyrirlesturinn af stakri prýði jafnóðum. Dr. Bergquist fór í inngang yfir starf sitt með Open Medicine Foundation og í fyrri helming fyrirlestursins fór hann yfir almenna meinafræði ME sjúkdómsins og gaf yfirgrip á þeirri þekkingu sem til er um hann.

Frá því hann hóf störf við Uppsala háskóla hefur hann, ásamt doktorsnemum sínum, starfað við greiningar á sjúkdómsmerkjum Parkinsons- og Alzheimer-sjúkdómi ásamt MS. Bergquist sagði frá því hvernig áhugi hans á ME byrjaði þegar hann var að vinna við rannsóknir á taugahrörnunarsjúdómum og kollegar hans báðu hann að skoða sjúklinga sem höfðu fengið Lyme sjúkdóminn og einnig þá sem höfðu ME. Hann áttaði sig á því í framhaldinu hvað hann hafi fengið litla menntun um sjúkdóminn eftir að hann fann einungis tvær línur um ME í gömlu skólalæknisfræðibókunum.

Bergquist sagði frá niðurstöðum úr rannsókn Uppsalaháskóla sem lauk á síðasta ári. Hún samanstóð af 50 sjúklingum og samanburðarhóp. Alls konar lífsýnarannsóknir voru gerðar og MRI myndir teknar af heila sjúklinga. Þrýstingur á heilavökva var einnig metinn með mælingum á þvermáli sjóntauga. Það kom rannsakendum á óvart að þrýstingur í heila margra ME sjúklinga var svolítið hækkaður.

Frumrannsóknir benda til þess að ákveðin sjálfsofnæmimótefni (gegn múskarín- og beta-adernergic viðtökum) séu algengari hjá ME/CFS-sjúklingum en gengur og gerist. Rannsóknir Bergquist leytast við að varpa betra ljósi á þessa þætti.

Mikið af rannsóknum bendir til bólguvirkni í taugum (neuroinflammation) ME sjúklinga og mælir Dr. Bergquist einnig prótein tengd verkjum og taugabólgu hjá ME/CFS sjúklingum og sjúklingum með vefjagigt. Rannsóknir Dr. Bergquist á ME beinast talsvert að því að skoða heila- og mænuvökva til að rannsaka þátt ónæmis- og taugakerfis. Bergquist kom inn á rannsóknir Dr. Yarred Younger sem hefur með háþróaðri myndgreiningu heilamynda sýnt að ME sjúklingar hafa eitlítið hækkað hitastig í miðtaugakerfi, sem gæti bent til bólgu. Einnig hefur Younger sýnt fram á hækkaða mjólkursýru í miðtaugakerfi og hækkað choline sem einnig eru vísbendingar um aukna bólguvirkni. Bergquist vinnur að því að þróa segulómsmyndir í þá átt að greina betur taugabólgur. Vonir hans standa til þess að með þeim verði hægt greina betur virkni microglia frumna sem virkjast við bólguviðbrögð í taugakerfinu. Og í framhaldinu auðvelda þannig greiningu ME sjúkdómsins.


Í lok fyrirlestra kom Bergquist inn á væntanlegar frumrannsóknir á virkni lyfja og jafnvel plantna sem nú þegar eru til staðar og eru notuð við öðrum sjúkdómum. Vonir hans og rannsakenda hans standa til þess að heimanotkun þeirra (líklega nefúði) geti hjálpað ME sjúklingum til að minnka bólgur í taugakerfi. Fyrirlesturinn má sjá í heild sinni á Youtube með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.Comments


Fréttir
bottom of page