top of page

Distinct plasma immune signatures in ME/CFS are present early in the course of illness

Cytokines - samskipti fruma

Margir vísindamenn skilgreina niðurstöðurnar sem fyrstu lífeðlisfræðilegu sönnunina á tilvist sjúkdómsins

Mady Hornig sem leiddi rannsóknina

Margir helstu sérfræðingar á sviði ME komu að þessari rannsókn. Það hefur reynst mjög erfitt að finna lífmerki fyrir ME (biomarkers) og rannsakendur veltu fyrir sér hvað gæti valdið því. Hugsanlega hefði það eitthvað að segja að greiningarviðmið sem notuð eru til að velja viðföng í rannsóknir eru ekki alltaf eins sem og vinnulag innan rannsóknastofa. Einnig var hugað að því hvort það hefði eitthvað að segja hvenær sýni voru tekin frá sjúklingum, þ.e.a.s. á hvaða stigi sjúkdómsins.

 

Í framhaldinu voru gögn úr tveimur rannsóknum tekin til gagngerrar skoðunar og ónæmisfrávik rannsökuð í tengslum við sjúkdómsgreiningu, lengd veikinda, mismunandi árstíðir, staðsetningu (landfræðilega), aldur og kyn.

Niðurstaðan sýnir greinilegar breytingar í ónæmisþáttum í blóði á fyrri stigum sjúkdómsins séu þeir bornir saman við heilbrigð samanburðarviðföng. Þessar breytingar sjást ekki hjá þeim sem hafa verið veikir lengur.

Það sjást greinilegar breytingar á frumuboðum (cytokines) á fyrstu stigum sjúkdómsins, þ.e.a.s. fyrstu þrjú árin. Bæði aukin virkni ákveðinna frumuboða sem tengjast bólgum og einnig truflun á samskiptum þeirra.

Það var ljóst að breytingar á frumuboðum tengdust frekar því hve lengi sjúklingurinn hafði verið veikur en hve alvarleg veikindin urðu. Það bendir til þess að undirliggjandi sjúkdómsþættir ME eru ekki stöðugir. Þessi niðurstaða gefur mikilvægar vísbendingar svo finna megi aðferðir til að grípa inn í ferlið og jafnvel greina ME fyrr.

Hér má sjá grein Columbia University um rannsóknina og niðurstöður hennar á heimasíðu háskólans.

Það má einnig sjá hana á PubMed og Science Advances þar sem hún birtist í febrúar 2015.

 

Lesa má um rannsóknina á The Wall Street Journal, fréttavef BBC, The New York Times og á vef Cort Johnson.

Meðal þeirra sem að rannsókninni stóðu voru nokkrir helstu sérfræðingar á sviði ME enda vakti rannsóknin mikla athygli og þykir marka ákveðin tímamót:

Mady Hornig, José G. Montoya, Nancy G. Klimas, Susan Levine, Donna Felsenstein, Lucinda Bateman, Daniel L. Peterson, C. Gunnar Gottschalk,

Andrew F. Schultz, Xiaoyu Che, Meredith L. Eddy, Anthony L. Komaroff og

W. Ian Lipkin

Cytokines eða frumuboðar er samheiti yfir hormón sem ákveðnar frumur ónæmiskerfis og taugakerfis gefa frá sér.

Viðföng:

52 sjúklingar (veikir skemur en 3 ár)

246 sjúklingar (veikir lengur en 3 ár)

Samtals 298 sjúklingar

Til samanburðar: 348 heilbrigðir einstaklingar

Niðurstöðurnar eru svo afgerandi að vísindamennirnir gátu greint, út frá rannsóknargögnum, 52 sjúklinga sem höfðu haft sjúkdóminn í minna en 3 ár.

bottom of page