top of page
Verður fjölgun ME tilfella í kjölfar Covid-19?

Þessa dagana velta sérfræðingar fyrir sér afleiðingum Covid-19 fyrir þá sem hafa smitast.


Það hefur lengi verið vitað að í kjölfar faraldra á borð við þennan fjölgi sjúklingum með ME (myalgic encephalomyelitis) eða ME lík einkenni. 

Eftir annan coronavírusfaraldur, SARS, rétt eftir aldamótin voru nokkrar rannsóknir gerðar á hópi fólks sem hafði smitast af vírusnum. Þær sýndu að hluti sjúklinga átti við langvarandi einkenni að stríða og bjó við skert lífsgæði. Það sama má segja um fleiri faraldra og er nærtækast að nefna Akureyrarveikina um miðja síðustu öld enda hefur stundum verið vísað til ME sem Icelandic disease eða Akureyri disease.

Með þetta í huga lýsir stjórn ME félags Íslands yfir áhyggjum sínum af hugsanlegri fjölgun ME sjúklinga í kjölfar Covid-19 faraldursins. Nú þegar eru brotalamir hvað varðar meðferðarúrræði fyrir þennan hóp hérlendis og mikilvægt að bæta úr því sem fyrst.

Virus covid.jpg

Einkenni sem líkjast ME og hefjast í kjölfar vírussýkinga eru kölluð postviral syndome eða postviral fatigue.

Á ICD flokkunarlista Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) er ME (myalgic encephalomyelitis) og veikindi í kjölfar vírussýkinga (postviral fatigue syndome) flokkað saman undir G93.3 í taugafræðilega hluta listans.

Hér má sjá flokkun WHO.

Dr. Charles Shephard, læknisfræðilegur ráðgjafi hjá ME Association samtökunum í Bretlandi, segir að þegar séu farnar að berast fréttir af fólki sem virðist ekki ná fullri heilsu eftir að hafa smitast af Covid-19. Hann hefur áhyggjur af því að hluti Covid-19 sjúklinga muni glíma við veikindi áfram.

Hér er hlekkur á  bækling sem ME Association gaf nýlega út og fjallar um postviral syndrome eða postviral fatigue.

Árin 2002-2003 geysaði SARS faraldur í Toronto. 273 greindust smitaðir. Þá eins og nú var kórónavírus sökudólgurinn og þótt það væri ekki sá sami og sá sem veldur Covid-19 tilheyra þeir sömu vírusafjölskyldu.

Eftir að sjúklingar töldust vera lausir við vírusinn var ljóst að sumir þeirra náðu ekki fullri heilsu. Dr. Harvey Moldofsky MD, Dip. Psych, FRCPC, University of Toronto (Centré for the Study of Pain) gerði rannsókn á nokkrum þeirra og birti niðurstöður sínar árið 2011. Þar sagði að margir sjúklingar væru enn veikir og með einkenni sem svipar til postviral syndrome eða ME.

Rannsóknin náði aðeins til um 8% þeirra sem lifðu af svo ekki er hægt að segja til um hve margir þeirra sem veiktust áttu við langvarandi veikindi að stríða.

Dr. Moldofsky hefur áhyggjur af því að hluti þeirra sem smitast núna muni í framhaldinu stríða við langvarandi veikindi af einhverjum toga.

Það kallar á að rannsakað sé hvers vegna þetta gerist, hvers vegna fólk veikist á þennan hátt eftir vírussýkingar og hvort hægt sé að koma í veg fyrir það.

Dr. Mark Guthridge, Deakin University, Ástralíu, bendir á að vitað sé að vírussýkingar geti orsakað ME/CFS. Hann óttast að á næstu 6-18 mánuðum megi sjá aukningu á heimsvísu á ME/CFS í kjölfar Covid-19.

Það er smám saman að koma í ljós að eftir að þeir veikustu eru útskrifaðir og teljast hafa náð heilsu er enn langt í land. Fréttir berast af því að sumir eiga við alvarlegan heilsubrest að stríða, hvort sem það tengist hjarta, lungum, hugsun, verkjum eða öðru. Mörg einkenni minna á ME eins og við er að búast í kjölfar veirusýkingar.

Það má lesa meira um þetta á síðu ME-pedia.

Lesa meira:
Hér eru hlekkir á greinar um þetta efni, líklega mun þeim fjölga smám saman.

Grein Cort Johnson á vef Simmaron Research

Grein á vef New Scientist

Grein Dr. Courtney Craig

Sóttvarnalæknir Bandaríkjanna,
dr. Anthony Fauci, segir að ljóst sé að tengsl séu á milli Covid og "post viral syndrome" sem minni mjög mikið á einkenni ME.

Hér er umfjöllum CNN um þetta

Hér er frétt á íslensku

CNN frétt.png
bottom of page