Heimildamyndir um ME
UNREST (2017)
Þegar hin bandaríska Jennifer Brea var 28 ára gömul var hún á toppi tilverunnar; í doktorsnámi og trúlofuð stóru ástinni í lífinu. Skyndilega veiktist hún alvarlega, fékk mikinn hita og það sem verra var - henni batnaði ekki þótt tíminn líði. Læknar sögðu henni að þetta væri ekki raunverulegur líkamlegur sjúkdómur heldur einhvers konar andleg veikindi.
Í leit sinni að svörum uppgötvaði Jen margar milljónir sjúklinga í sömu sporum - bundna við heimili sitt eða jafnvel rúmið án þess að hafa nokkra hugmynd um hvenær eða hvernig þessu ástandi lyki. Myndin lýsir leit hennar og eiginmanns hennar að lækningu og viðleitni þeirra til að til að lifa með sjúkdómnum.
Forgotten Plague (2015)
Í október 2006 veiktist Ryan Prior alvarlega og líf hans breyttist til frambúðar. Læknar gátu ekki veitt honum svör, hvað þá einhverja meðferð.
Á undraverðan hátt tókst honum að gera þessa mynd um sögu sína og ótrúlega leið að bata. Myndin er þó ekki síður merkileg fyrir þær sakir að hún varpar ljósi á veikleika bandaríska heilbrigðiskerfisins þegar það þarf að takast á við króníska, illskýranlega sjúkdóma. Einnig er sagt frá merkilegum vísindauppgötvunum og hvernig þær gjörbreyta viðteknum viðhorfum.
SYKT MÖRKT (2014)
Það er sorglegt að hugsa til þess að fjöldi fólks skuli liggja algerlega einangrað í myrkri og vita ekkert hvort eða hvenær það kemst aftur út í lífið.
Í þessari 58 mínútna mynd er fylgst með norsku ME sjúklingunum Kristine og Bjørnar í 6 ár. Reynt er að bregða upp mynd af lífi þeirra í myrkrinu en bara í stutta stund í einu því þau þola nánast ekkert áreiti.
Von og vonleysi, lífsgleði, framtíðarsýn og draumar er viðfangsefni myndarinnar. Við fáum einnig að fylgjast með því þegar þau fá loks að prófa nýtt lyf sem getur hugsanlega bundið enda á þessa vist í myrkrinu.
Myndin er ekki lengur aðgengileg á vefsíðu framleiðanda en hægt er að sjá trailer á You tube
Voices from the Shadows (2011)
Natalie Boulton móðir konu með ME gerði þessa mynd ásamt syni sínum Josh Boulton. Þeim blöskraði meðferð heilbrigðiskerfisins í Bretlandi á þessum sjúklingum sem settir voru í hendurnar á geðlæknum sem ekkert kunnu að sinna þessu fólki. Hér ræða þau fordómana og og þekkingarleysið gagnvart þessum alvarlega sjúkdómi.
Fa meg frisk (2010)
Í þessari norsku mynd fylgjumst við með Anette í leit hennar að lækningu við ME. Hún segist hafa lagt sjálfa sig, líkama og sál og alla peningana að auki í hendurnar á hverjum þeim sem þóttist hafa svör við sjúkdómnum.
Kvikmyndagerðarmaðurinn Pal Winsent hefur gert röð heimildamynda um fólk í erfiðum aðstæðum og þykir hann gera efni þessarar myndar góð skil.