Um félagið

ME félag Íslands var stofnað þann 12. mars 2011. Sjúklingar voru þá farnir að tala saman á netinu og bera saman bækur sínar. Flestir þeirra höfðu fengið síþreytugreiningu og sumir einnig vefjagigtargreiningu. Margir höfðu einnig fengið einhvers konar geðgreiningar, oftast þunglyndi og/eða kvíða. Ákveðinn hópur fann að þau úrræði sem í boði voru hjálpuðu ekki og allir voru sammála um að það vantaði sárlega meiri þekkingu, skilning og úrræði vegna þess sem kallað var síþreyta.

 

Það kom að því að félagið varð til og hefur tilgangurinn alltaf verið að afla þekkingar um ME og auka hana meðal heilbrigðisstéttarinnar, sjúklinganna sjálfra, aðstandenda þeirra og almennings.

 

Þeir sem höfðu lesið sér til, bæði bækur og greinar á netinu, vissu að erlendis var mikil andstaða gegn nafninu Chronic Fatigue Syndrome eða CFS sem þýtt hafði verið sem síþreyta á íslensku. Það er gild ástæða fyrir því og þegar félagið var stofnað var ákveðið að það skyldi vera kennt við ME en síþreytuheitinu ýtt út.

Það hefur þurft að vinna mikla grunnvinnu þar sem þessi

sjúkdómur er lítt þekktur, misskilinn og honum í sumum

tilfellum afneitað. Það er mikið verk að vinna að málefnum

sjúklingahóps - hvað þá þegar byrja þar á því að koma sjúkdómnum á kortið.

 

Fulltrúar félagsins hafa tvívegis fundað með Landlækni auk annarra úr heilbrigðisgeiranum. Markmiðið er að vinna að bættri stöðu ME sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og að koma því til leiðar að ME sjúklingar geti búið við fjárhagslegt öryggi sem ekki er tryggt eins og stendur.

 

 

Félagið er nú aðili að þremur stærri bandalögum; Öryrkjabandalagi Íslands, Europian ME Alliance sem er bandalag ME félaga í Evrópu og svo Nordic ME Network sem er bandalag ME félaga á Norðurlöndum. Þessi samvinna er mjög gefandi fyrir félagið og ómetanlegur styrkur.

 

Þessi heimasíða opnaði í apríl 2015 en félagið hefur alltaf unnið að fremsta mætti að því að koma upplýsingum og þekkingu á framfæri. Það stendur líka að fræðslufundum og félagslífi fyrir félagsmenn, aðstandendur og aðra áhugasama.

 

 

STJÓRN:

Guðrún Sæmundsdóttir formaður

Stefanía Þorsteinsdóttir varaformaður og ritari
Eyrún Sigrúnardóttir
 gjaldkeri

Cynthia Lisa Jeans meðstjórnandi

Anna Maria Jeans meðstjórnandi

 

Ritstjóri heimasíðu:

Eyrún Sigrúnardóttir