top of page

Lög ME félags Íslands


1. grein
Nafn félagsins er ME félag Íslands. Félagið starfar samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til 
almannaheilla. Félagssvæðið er landið allt en heimili þess og varnarþing er í Hafnarfirði. Félagið 
er aðili að Öryrkjabandalagi Íslands. Erlent heiti félagsins er The ME Society of Iceland.

2. grein
Tilgangur félagsins er að vinna að velferð þeirra sem haldnir eru ME sjúkdómnum. Unnið skal að 
tilgangi þessum meðal annars með eftirfarandi hætti:
a) Að gæta hagsmuna félagsmanna og vera málsvari gagnvart hinu opinbera, sem og innlendum og 
erlendum aðilum.
b) Að efla tengsl ME sjúklinga og standa að fræðslu um ME sjúkdóminn á sem breiðustum grundvelli.
c) Að fylgjast með nýjungum í rannsóknum og meðferðum á sjúkdómnum og koma þeim fróðleik áfram til 
félagsmanna sinna.
d) Veita aðstoð og félagslegan stuðning þeim sem haldnir eru sjúkdómnum.
e) Vera vettvangur fyrir þá sem haldnir eru ME sjúkdómnum og aðstandendur þeirra til að koma saman.
f) Að eiga samstarf við önnur félög af svipuðum toga hérlendis og erlendis.

3. grein
Félagar geta verið einstaklingar með ME sjúkdóminn, aðstandendur þeirra og aðrir sem áhuga hafa á 
málefnum félagsins.

4. grein
Félagið aflar tekna með árgjöldum félagsmanna, gjöfum og styrkjum sem því kann að áskotnast. Tekjum 
félagsins skal ráðstafað til að standa undir þeim kostnaði sem til fellur við að uppfylla markmið 
félagsins samkvæmt 2. grein.

5. grein
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins og skal hann haldinn eigi síðar en í apríl ár 
hvert. Aðalfundur er löglegur sé til hans boðað bréflega, með tölvupósti eða sms smáskilaboðum 
samkvæmt félagaskrá með í það minnsta tveggja vikna fyrirvara og skal dagskrá aðalfundar tilgreind 
í fundarboði. Framboð til stjórnar og nefnda skal tilkynna til skrifstofu eigi síðar en viku fyrir 
aðalfund. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þeir sem eru skráðir í félagið eigi síðar en viku fyrir 
aðalfund og eru skuldlausir. Ritari og gjaldkeri ásamt einum fundarmanni tilnefndum af formanni 
skulu kanna kjörgengi og kosningarétt fundarmanna við upphaf fundar. Hver atkvæðisbær félagsmaður 
hefur eitt atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum mála, nema annars sé getið í lögum félagsins.

6. grein
Á aðalfundi skulu þessi mál tekin til meðferðar:
a) Kosning fundarstjóra og fundarritara
b) Skýrsla stjórnar
c) Endurskoðaðir ársreikningar félagsins lagðir fram
d) Umræður og afgreiðsla á skýrslu stjórnar og ársreikningum
e) Upphæð árgjalds ákveðin
f) Lagabreytingar
g) Kosning stjórnar samkvæmt 9. grein

h) Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
i) Kosning nefnda
j) Önnur mál

7. grein
Boða skal til aukaaðalfundar svo fljótt sem auðið er ef meirihluti stjórnar eða a.m.k. fjórðungur 
félagsmanna fer fram á það skriflega og leggur fram tillögu að dagskrá.

8. grein
Lögum félagsins má breyta á aðalfundi eða aukaaðalfundi með samþykki 2/3 hluta atkvæða. Tillögur 
til lagabreytinga skulu kynntar í fundarboði.

9. grein
Stjórn félagsins skipa 5 menn og 2 til vara; formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, 
meðstjórnandi og tveir varamenn. Allir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára. Tveir til þrír 
stjórnarmenn eru kosnir hverju sinni og einn varamaður. Jafnmargir ganga úr stjórn. Formaður er 
kosinn sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Á oddatöluári er kosið um 
formann, 2 stjórnarmenn og 1 varamann.

10. grein
Stjórnarseta skal ekki vara lengur en sex ár samfleytt og verða menn kjörgengir á ný að ári. 
Aðalfundi einum er heimilt að ákveða hvort greiða skuli stjórnarlaun. Samanber eftirfarandi atriði:
a) Ferðakostnað og uppihald stjórnarmanna á stjórnarfundum.
b) Kostnað vegna fundarsóknar fulltrúa félagsins í stjórnum og nefndum samtaka, stofnana og 
fyrirtækja sem félagið á aðild að ásamt kostnaði vegna ferða fulltrúa félagsins á ráðstefnur og 
fundi.
c) Stjórn setur reglur er varðar ferðir og dvalarkostnað vegna ferða fulltrúa félagsins á 
ráðstefnur og fundi erlendis sem stjórn hefur samþykkt þátttöku í.

11. grein
Stjórnin ræður málefnum félagsins milli aðalfunda með þeim takmörkunum sem lög þess setja. Hún 
tekur nánari ákvarðanir um starfsemi þess þ.m.t. ráðningu framkvæmdastjóra og ber ábyrgð á 
fjárreiðum. Á grundvelli bókaðra samþykkta á stjórnarfundi getur hún skuldbundið félagið gagnvart 
öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess. Stjórnin getur þó veitt 
einum eða fleirum sameiginlega prófkúru fyrir félagið. Til meiriháttar ákvarðanatöku, svo sem kaup, 
byggingu eða sölu fasteigna, skal ávallt boða til félagsfundar og skal til hans boðað á sama hátt 
og til aðalfundar. Ræður afl atkvæða úrslitum á slíkum fundum. Stjórn félagsins er heimilt að fela 
einstaklingum og nefndum, sem hún kýs, afmörkuð verkefni fyrir félagið á milli stjórnarfunda.

12. grein
Formaður boðar til stjórnarfunda, sem halda skal svo oft sem þurfa þykir, en þó eigi sjaldnar en 
tvisvar á ári. Stjórnarfund skal einnig halda ef í það minnsta tveir stjórnarmenn krefjast þess.
Stjórnarfundur er löglegur og ályktunarbær ef þrír stjórnarmenn eða varastjórnarmenn sækja fundinn 
hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Boða skal til stjórnarfunda með að lágmarki 
viku fyrirvara. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

13. grein
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningarnir skulu endurskoðaðir af tveimur skoðunarmönnum 
sem aðalfundur kýs.

14. grein

Komi fram tillaga um slit félagsins skal farið með hana eins og lagabreytingatillögu. Þó fæst hún
eigi afgreidd nema a.m.k. fimmtungur félagsmanna mæti til aðalfundar. Ef ekki næst tilskilin 
fundarsókn skal boða til framhaldsaðalfundar um tillöguna innan mánaðar. Sá fundur getur afgreitt 
tillöguna án tillits til fjölda fundarmanna. Verði félagið lagt niður skal á sama fundi ráðstafa 
eignum þess í samræmi við tilgang félagsins.

15. grein
Þessi lög voru þannig samþykkt á aðalfundi ME félags Íslands 12. mars 2011. Í desember 2021 
samþykkti stjórn ME félags Íslands að breyta skráningu félagsins úr því að vera félagasamtök yfir í 
að vera almannaheillafélag og bætti við 4. grein laganna um að tekjum félagsins skyldi ráðstafað 
til að standa undir þeim kostnaði sem til fellur við að uppfylla markmið félagsins samkvæmt 2. 
grein, og að félagið skyldi starfa samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla, að
öðru leiti haldast lögin óbreytt frá fyrri skráningu félagsins.
 

bottom of page