LDN
Low Dose Naltrexsone (LDN) meðhöndlun við M.E.
LDN er skammstöfun fyrir Low Dose Naltrexone eða lág-skammta-Naltrexone. Nafnið dregur lyfið af því að litlir skammtar af því eru teknir rétt fyrir svefn. Erlendis er LDN oft notað við gigtarsjúkdómum, sjálfsofnæmissjúkdómum og taugahrörnunarsjúkdómum. Vísbendingar eru um að lyfið hjálpi við meðhöndlun ýmissa krabbameina. Forrannsóknir á LDN benda til að það hjálpi um 50% – 80% sjúklinga með þá sjúkdóma sem það er þekkt fyrir að virka á. Engar rannsóknir eru fyrirliggjandi um árangur LDN meðhöndlunar á M.E. en athyglisvert er í því samhengi að skoða árangur af forrannsókn af áhrifum lyfsins á vefjagigt í frumrannsókn sem fór fram í Stanford háskóla.
M.E. og vefjagigt eru af sumum sérfræðingum álitnir skyldir sjúkdómar. Stanford rannsókninn sýndi að um 6 af hverjum 10 vefjagigtarsjúklingum hlutu árangur af töku LDN. Sumum M.E sjúklingum hefur reynst hjálplegt að sýna læknunum sínum útprentun af þessari rannsókn þegar þeir biðja um að fá að reyna lyfið. Stundum fá sjúklingar jákvæð viðbrögð við lyfinu á lengri tíma heldur en þeim þremur mánuðum sem sú rannsókn tók en oftast koma áhrif þess fram á fyrstu vikum inntöku.
Rannsóknina má sjá hér: http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2891387/
Naltrexone, virka efnið í LDN, var upphaflega þróað til að loka á endorfínviðtakendur í líkamanum til að hjálpa morfínefnafíklum út úr ofskömmtunarástandi. Naltrexone hefur verið gefið í um 50 – 100 mg og viðurkennt af heilbrigðisyfirvöldum víða um heim til þessara nota í nokkra áratugi. Naltrexone er skráð sem undanþágulyf hérlendis. Aðrir eiginleikar lyfsins komu í ljós um það leyti sem einkaleyfi á Naltrexone var að renna út. Athugull læknir í New York, dr. Bernard Bihari, áttaði sig á að með notkun LDN í smáskömmtum (um 4,5 mg rétt fyrir svefn) var hægt að fá líkamann til að auka framleiðslu endorfína. Endorfín eru hormón sem líkaminn framleiðir og gegna hlutverki við að stýra ónæmiskerfinu í baráttu þess við sjúkdóma. Notkun á LDN í þessum tilgangi hefur síðan hægt og bítandi verið að breiðast út um hinn vestræna heim og þar sem Naltrexone er fyrir löngu viðurkennt lyf mega læknar einnig ávísa því í þessum tilgangi.
Maija Haavisto, finnskur rithöfundur og sjálfstæður rannsóknaraðili hefur leikið stórt hlutverk í því að kynna LDN fyrir M.E. sjúklingum. Bók hennar sem fjallar um möguleika LDN og fleiri úrræða til að fást við M.E. heitir ,,The Broken Marionette“ og má finna á slóðinni: http://www.brokenmarionettebook.com/
M.E. sjúklingar voru meðal þeirra fyrstu hérlendis til þess að reyna LDN meðferð og voru ásamt M.S. sjúklingum brautryðjendur í því að vekja athygli á möguleikum LDN hér. Þeir stofnuðu samhjálparhóp á fésbókinni til þess að hjálpa öðrum að átta sig á lyfinu og framvindunni í meðhöndlun. Hópinn má finna hér: https://www.facebook.com/groups/114217441992197/?fref=ts Þessi vakning varð til þess að lyfið hefur verið að hljóta hæga en örugga útbreiðslu á Íslandi. LDN fæst nú gegn lyfseðli í Árbæjarapóteki og er uppáskrifað af stöðugt fleiri íslenskum læknum.
Þó LDN sé gefið í örskömmtum getur ónæmiskerfið tekið mjög kröftuglega við sér í byrjun notkunar. Það er mjög vel þekkt að þegar sjúklingar byrja á LDN að þeir ganga í gegnum u.þ.b. 10 daga þreytutímabil á meðan ónæmiskerfi líkamans er að fara af stað. Stundum koma fram aukin sjúkdómseinkenni á meðan á þessu stendur. Oft ráðleggja læknar að byrjað sé rólega á lyfinu og að tekin séu einungis um 1/3 úr skammti fyrstu vikurnar á meðan það er að byrja að virka og smáauka magnið þangað til hámarksskammt er náð. Hámarksskammtur er yfirleitt á bilinu 2 – 4,5 mg en minni skammtar þekkjast líka. Læknar sem þekkja lyfið vel ráðleggja oft líka rólegan lífsstíl á meðan þetta aðlögunartímabil stendur yfir. Það er einnig vel þekkt að stundum þurfa sjúklingar að sofa miklu meira meðan þeir ganga í gegnum þetta tímabil og þeim er ráðlagt að byrja LDN meðferð þegar gott tækifæri er til hvíldar og afslöppunar. Áðurnefndur sjálfshjálparhópur á Facebook hefur reynst sjúklingum hjálplegur við að bera saman bækur sínar í framvindu LDN meðhöndlunarinnar.
Gísli Þráinsson, mars 2013.
Heimildir og rannsóknir:
The Promise of Low Dose Naltrexone Therapy.
Samansafn læknisfræði sem varðar LDN.
Höfundar: Elaine A. Moore og Samantha Wilkinson.
Honest Medicine. Höfundur Julia Schopick.
Hugleiðingar um hlutverk LDN í almennri heilsugæslu.
The Broken Marionette eftir Maija Haavisto og upplýsingavefur hennar.