top of page

Methylhjálp

Methylhjálp (Methylation Protocol) sem meðhöndlun við M.E.

Undanfarin ár hafa borist fréttir erlendis frá af M.E. sjúklingum og sjúklingum með aðra tauga- og ónæmiskerfissjúkdóma sem hafa hlotið mismunandi mikinn og stundum talsverðan bata fyrir tilstuðlan meðhöndlunar með lífvirkum B-vítamínum. Nokkrir íslenskir M.E. sjúklingar hafa einnig verið að reyna þessa aðferð og sumir þeirra hafa fengið góða reynslu af henni. Þessi vítamín hjálpa sjúklingum sem geta ekki unnið úr venjulegum B-vítamínum til þess að eignast aftur heilbrigðari Methyl-efnaskipti. Við höfum kallað þessa aðferð Methylhjálp hérlendis (Enskt heiti: Methylation help/ Methylation Protocol).

 

Þróun Methylhjálparaðferða kemur í kjölfar erfðauppgötvana undanfarin ár sem hafa sýnt að sumir sjúklingar með tauga- og ónæmiskerfissjúkdóma hafa takmarkaða getu til að vinna úr venjulegum B-vítamínum og aðallega takmarkaða getu við að vinna úr venjulegu B9. Þessi vanvirkni á sér rætur í genagalla í MTHFR geni sjúklinga sem á að sjá um að framleiða ensím í líkama sjúklinga til að vinna úr B9 vítamíni.

Methylhjálparaðferðir eru því mjög eðlilegar fyrir lífefnafræði líkamans því þær bæta einfaldlega upp vangetu sjúklinga til að vinna úr venjulegum B-vítamínum með beitingu lífvirkra B-vítamína í staðinn. Aðallega er um lífvirk B6, B12 og hið áríðandi, lífvirka B9 að ræða. Lífvirk vítamín eru vítamín sem búið er að vinna á það form að líkaminn getur nýtt þau beint án þess að þurfa að forvinna þau. Þau þarf að gefa í nákvæmum skömmtum. Það er ekki langt síðan lyfjafyrirtæki fóru að geta framleitt þessi vítamín og má segja að með þessari þróun sé að hefjast nýr kafli á sviði lífefnalækninga. Methylhjálp hefur hlotið lof bæði heildrænna og hefðbundina lækna sem fylgjast með þróuninni vestanhafs. Rannsóknir á MTHFR genabreytingum eru líka mjög vinsælar. Heita má að nýjar rannsóknarniðurstöður berist gagnabanka bandarískra heilbrigðisyfirvalda vikulega.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Dr. Richard Van Konynenburg

Íslendingar sem hafa reynt þessa aðferð hafa yfirleitt pantað þessi vítamín frá Bandaríkjunum eða Bretlandi. Sjúklingum hefur reynst auðvelt að flytja þau inn á eigin vegum en læknar mega skrifa upp á undanþágur fyrir tollafgreiðslu ef þörf krefur. Ekki þarf að framvísa læknisvottorði til að kaupa þau í Bretlandi og Bandaríkjunum. Innkaupalisti hefur verið settur upp á sjálfshjálparhóp M.E. félagsins á Fésbókinni til að auðvelda sjúklingum að átta sig á hvernig methylhjálp er samansett og verða sér út um þessi vítamín. Þó lífvirk B vítamín megi fá erlendis án uppáskriftar hefur þótt ráðlegt að læknir fylgist með sjúklingum á methylhjálp. Sjúklingar hérlendis hafa venjulega farið með uppýsingaefni um þessa aðferð til heimilslæknis eða sérfræðings og beðið þá um að fylgjast með framvindunni. Viðtökurnar hjá læknum hafa verið mjög góðar og hafa sjúklingar fengið að njóta yfirsýnar þeirra samhliða meðhöndluninni. Sumir læknar hafa tekið ýmis blóðpróf ef þeim hefur þótt ástæða til varðandi veikindi viðkomandi. Aðrir hafa látið nægja að fara yfir upplýsingaefnið og vítamínlistana og gefið samþykki sitt í framhaldi.

Methylhjálp stuðlar að betri hreinsun líkamans.


Methylhjáp er venjulega svolítið strembin fyrstu tvær til sjö vikurnar. Á þeim tíma er ráðlegt að fara vel með sig, reyna ekki mikið á sig líkamlega og draga úr félagslífi. Hreinsunargeta er að batna og líkaminn er að vinna upp verkefni sem hann hefur ekki ráðið við á meðan að Methyl-efnaskipti voru biluð. Þetta eru yfirleitt væg viðbrögð og stundum sleppur fólk við erfiðleika. Eftir 5 – 7 vikur upplifa sjúklingar oftast jákvæðu breytingarnar af Methylhjálp og aðlögunar-batatímabilið er nokkurn vegin liðið hjá.

En eitt af því sem hefur komið fram við forrannsóknir á meðhöndlun með lífvirkum B-vítamínum, er það að Glutathionemagn líkamans eykst (Dr. Richard Van Konynenburg og Dr. Neil Nathan). Glutathione má segja að sé hjartað í hreinsi- og andoxunarkerfum líkamans og þetta efni hefur mikið að segja um almennt heilbrigði. Methylefnahvörf leika einnig þátt í ótal öðrum efnaferlum og þau eiga sér stað billjón sinnum á hverri sekúndu í hverri einustu frumu. Talsvert af forrannóknum hafa sýnt fram á græðandi áhrif lífvirkra B-vítamína á taugakvilla og fleira.

 

Stundum getur orðið væg auking á einkennum sjúklinga á meðan á aðlögunartímabilinu stendur og því er ráðlegt að vinna með lækni að þessari aðferð (sem er skilyrði fyrir virkri þátttöku á sjálfshjálparhóp M.E. félagsins á Fésbókinni). Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að aðlögunartímabilið er vegna eðlilegra viðbragða líkamans við betri efnaskiptum. Þó geta komið upp ýmis tímabundin viðbrögð sem læknir þarf að hafa umsjón með. Mjög hjálplegt getur verið fyrir sjúklinga að bera saman bækur sínar á sjálfshjálparhópum á meðan þeir átta sig á ferlinu.

 

Á sjálfshjálpar- og upplýsingahóp M.E. félagsins um Methylhjálp á Fésbókinni eru settar upp nákvæmar útlistanir á þeirri aðferð sem hefur verið beitt af læknum erlendis við meðhöndlun M.E. sjúklinga ásamt tenglum á rannsóknarniðurstöður og fleiri sjálfshjálparhópa erlendis.

Notkun lífvirkra B-vítamína til meðhöndlunar M.E. sjúklinga kom mikið til vegna rannsóknarstarfs Dr. Richard Van Konynenburg. Rich var einna virkastur þeirra fræðimanna sem undanfarin ár fylgdist með vísindauppgötvunum á MTHFR genabreytingum og störfuðu við það að koma þeirri þekkingu á það form að hægt væri að beita henni í meðhöndlun sjúklinga með tauga- og ónæmiskerfissjúkdóma. Konynenburg skýrði mikið af kenningum læknisins Dr. Amy Yasko o.fl. um beitingu lífvirkra B-vítamína til að fást við veikindi fólks með þessa genabreytingu, einfaldaði þær og gerði þær aðgengilegar M.E. sjúklingum. Það sem var athyglisvert við þátt Van Konynenburg í þessari nýju þekkingarbylgju var það að hann vann allt sitt starf í sjálfboðavinnu og í yfir tíu ár aðstoðaði hann sjúklingameð ítarlegum svörum sínum á sjálfshjálparhópum. Hann birti einnig greinasöfn sín á upplýsingaveitum M.E sjúklinga á vefnum. Sú þolinmæði og virðing á sjálfshjálparhópum sem fólk varð vitni að hjá Rich var einstök. Hann svaraði nær hverjum einasta sjúklingi með mjög ítarlegum og fræðilegum tilsvörum og var óstöðvandi í að fara yfir rannsóknir. Margoft kom hann með erfiðar greiningar sem hjálpuðu sjúklingum að halda lífi og læknum þeirra að viðhafa rétt úrræði. Upplýsingaveita M.E. sjúklinga, Phoenix Rising segir að hann hafi skrifað yfir 2.700 pósta inn á sjálfshjálparhópa og upplýsingasíður hjá þeim. Methylhjálpar-stuðningshópur M.E. félags Íslands á Fésbókinni var stofnaður í minningu Dr. Richard Van Konynenburg.

 

Gísli Þráinsson, mars 2013

Heimildir og rannsóknir:

 

Samsafn af efni Richard Van Konynenburg á Phoenix Rising upplýsingaveitu M.E. sjúklinga. Ítarlegt skjalasafn sem inniheldur kenningar hans um meðhöndlun M.E. með lífvirkum B vítamínum, skýrslur og rannsóknatilvísanir.

 

Fyrirlestrar Dr. Richard Van Konynenburg um methylhjálp í Stokkhólmi:

 

Fyrsti hluti fyrirlestrar. Hér fjallar Konynenburg um M.E. og þátt methylvanvirkni og Glutathioneskorts í þróun sjúkdómsins.
 

Annar hluti fyrirlestrar. Konynenburg skoðar áhrif methylvanvirkni á hin ýmsu líffærakerfi líkamans.
 

Þriðji hluti fyrirlestrar fjallar um tímamótarannsókn Richard Van Konynenburg og Dr. Neil Nathan á Methylhjálp við M.E. sjúkdómnum og niðurstöður hennar.

 

Bókin Healing Is Possible: New Hope for Chronic Fatigue, Fibromyalgia, Persistent Pain, and Other Chronic Illnesses eftir lækninn Dr. Neil Nathan. Þessi bók er ætluð sjúklingum og í henni er kafli um methylhjálp.

 

Í bókinni Acquired Mitochondropathy – A New Paradigm in Western Medicine explaining Chronic Diseases er kafli um methylhjálp og er þetta fyrsta læknisfræðiritið sem fjallar um þessa meðhöndlunarleið.

bottom of page