top of page

Opnun skrifstofu og nýr starfsmaður ME félagsins




Pála Kristín Bergsveinsdóttir er nýr starfsmaður hjá ME félaginu

Pála er með MA -próf í fötlunarfræðum frá Háskóla Íslands. Einnig er hún með BA -próf í félagsráðgjöf með starfsréttindum frá sama skóla.


Pála hefur starfað að málefnum fatlaðs fólks allan sinn starfsaldur. Hún starfaði hjá Sjálfsbjörg Landssambandi við að vefsíðu Þekkingarmiðstöðvarinnar og við að svara ýmsum fyrirspurnum sem bárust til Sjálfsbjargar. Auk þess hefur Pála starfað sem ráðgjafi hjá NPA miðstöðinni. Hlutverk hennar þar var meðal annars að veita ráðgjöf til einstaklinga með notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) um rétt þeirra til þjónustu og framkvæmd hennar til dæmis aðstoð við ráðningar, upplýsingagjöf í tengslum við kjarasamningsbundin réttindi o.s.frv. Pála hefur starfað sem stuðningsfulltrúi og deildarstjóri á hinum ýmsu vinnustöðum og heimilum sem þjónusta fatlað fólk. Hún starfar í málefnahóp um atvinnu- og menntamál hjá ÖBÍ.

Pála hefur í gegnum líf sitt og starf öðlast mikla þekkingu á málefnum fatlaðs fólks. Hún er hreyfihömluð eftir erfið veikindi á unglingsárum.

Pála mun aðstoða félagsmenn með úrlausnir á hinum ýmsu málum og funda með félagsmönnum ef þess er óskað.


Hún veitir upplýsingar um ME félagið og um þá þjónustu sem ÖBÍ veitir sem nýtist ME félagsmönnum. Hún mun sjá um að skipuleggja félagstarf í samráði við félagsmenn. Hún mun kynna málefnahópastarf ÖBÍ fyrir félagsmönnum. Hjá ÖBÍ réttindasamtökum eru starfræktir sex málefnahópar, um aðgengismál, atvinnu- og menntamál, málefni fatlaðra barna, heilbrigðismál, húsnæðismál og kjaramál.


Pála verður með viðveru í skrifstofu ME félagsins, Sigtúni 42, húsnæði ÖBÍ, eftir hádegi á þriðjudögum og miðvikudögum frá kl. 12.00 til kl. 15.00 og föstudagsmorgna frá kl. 09:30 til kl. 12.00.

Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið pala@mefelag.is

Þjónustan er gjaldfrjáls og öllum er velkomið að nýta sér hana, við bendum foreldrum ME veikra barna sérstaklega á að leita til Pálu.




Fréttir
bottom of page